Fræðsluvefur um áhrif kannabis á líkama

Kannabis og námsárangur

Margar rannsóknir sýna fram á tengsl kannabisnotkunar, lakari námsárangurs og brottfalls úr skóla. Þetta virðist sérstaklega eiga við ef notkun hefst snemma á unglingsárum1. Árið 2010 birtist safngreining sem sýndi að unglingar sem notuðu kannabis voru tvöfalt líklegri til að detta úr námi en aðrir 2. Áhættan var enn til staðar þegar leiðrétt var fyrir námsárangri og öðrum félagslegum þáttum í upphafi. Þannig renna rannsóknir stoðum undir þá kenningu að kannabisnotkun valdi lélegri námsárangri frekar en að notkunin sé afleiðing lakari námsárangurs2. Nýleg ransókn frá Nýja-Sjálandi staðfesti þessar niðurstöður3.

         Þetta er í samræmi við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum kannabis á æðri heilastarfsemi. Rannsókn frá árinu 2013 sýndi að notkun kannabis á unglingsaldri leiddi til lækkunar á greindarvísitölu um 8 stig. Skerðingin var óafturkræf þótt notkun lyki4. Niðurstöður nýlegrar yfirlitsgreinar sýndu að bráð áhrif kannabisnotkunar leiddu til skerðingar á athygli og einbeitingu. Einnig hafði notkun letjandi áhrif á vinnsluminni og skipulagshæfni5. Áhrifa gætir enn allt að þremur vikum eftir síðustu notkun5. Rannsóknir, byggðar á segulómskoðun á heila, hafa sýnt minni virkni á svæðum er stjórna minni og athygli hjá þeim er nota kannabis reglulega miðað við þá sem hafa ekki notað kannabis6. Þessara áhrifa gætir enn 28 dögum eftir síðustu notkun og allt upp í tvö ár. Nýleg rannsókn sýndi að minni ungmenna sem notuðu kannabis reglulega á aldrinum 16-17 ára í þrjú ár var marktækt lakara en þeirra sem ekki höfðu notað kannabis7. Jafnframt var drekasvæðið í heila þeirra sem höfðu notað kannabis reglulega, marktækt rýrara en þeirra sem ekki höfðu notað það. Sá hluti heilans hefur með minni að gera en er einnig talinn gegna hlutverki í tengslamyndun.

 

 

 

 

  1. Macleod J, Oakes R, Copello A, Crome L, Egger M, Hickman M, et al. Psychological and social sequelae of cannabis and other illicit drug use by young people: a systematic review of longitudinal, general population studies. Lancet. 2004; 363(9421): 1579-88.
  2. Horwood LJ, Fergusson DM, Hayatbakhsh MR, Najman JM, Coffey C, Patton GC, et al. Cannabis use and educational achievement: Findings from three Australasian cohort studies. Drug and alcohol dependence. 2010; 110(3): 247-53.
  3. Silins E, Horwood LJ, Patton GC, Fergusson DM, Olsson CA, Hutchinson DM, et al. Young adult sequelae of adolescent cannabis use: an integrative analysis. The Lancet Psychiatry. 2014; 1(4): 286-93.
  4. Meier MH, Caspi A, Ambler A, Harrington H, Houts R, Keefe RSE, et al. Persistent cannabis users show neuropsychological decline from childhood to midlife. P Natl Acad Sci USA. 2012; 109(40): E2657-E64.
  5. Crean RD, Crane NA, Mason BJ. An Evidence-Based Review of Acute and Long-Term Effects of Cannabis Use on Executive Cognitive Functions. J Addict Med. 2011; 5(1): 1-8.
  6. Block RI, O'Leary DS, Hichwa RD, Augustinack JC, Boles Ponto LL, Ghoneim MM, et al. Effects of frequent marijuana use on memory-related regional cerebral blood flow. Pharmacology, biochemistry, and behavior. 2002; 72(1-2): 237-50.
  7. Smith MJ, Cobia DJ, Reilly JL, Gilman JM, Roberts AG, Alpert KI, et al. Cannabis-related episodic memory deficits and hippocampal morphological differences in healthy individuals and schizophrenia subjects. Hippocampus. 2015.